top of page

 

 

Um geðslag þýskra fjárhunda

Þáttagreining skapgerðar (Elements of temperament)

Höfundur: Joy Tiz

1.    Hvað er geðslag hunda?
“Hundurinn minn er mjög geðgóður! . . . Nema hann hatar ókunnuga.”
“Ég á alveg fullkominn hund. Geðslag hans er fullkomið og hann býr ekki yfir neinum verndarcomplexum!”
“Ég mundi aldrei vilja hafa hund með mikla veiðihvöt. Þeir eru grimmari í eðli sínu!”

Allar þessar fullyrðingar eru frá venjulegu fólki. Allt þetta kemur frá fólki sem er Schäfer uppalendur og ræktar hunda. Við erum alltaf að tala um þýðingu á geðslagi hunda, en hvað er það sem við erum að tala um? Erum við kannski ekki öll að tala um sama hlutinn?

Þegar við erum að tala um geðslag hunda erum við að tala um hvað er það sem drífur hundinn áfram. Eru einhverjir þröskuldar í veginum, eitthvað í þjálfuninni eða í skapgerð sem við höfum innprentað honum, eða liggur það bara í skapgerð hundsins? Við verðum að gera okkur ljóst að geðslag hunds er það sem hann fær frá forfeðrum sínum. Geðslag er það sem hann fær í arf, ekki það sem við erum að reyna að kenna honum. Innsti grunnur í persónuleika hunds breytist aldrei. Viss hegðunarmunstur og viðmót er hægt að hafa áhrif á, en grunnurinn í skapgerð hunds breytist aldrei. Hundur sem fær vissa eiginleika í arf heldur þeim. Hundur sem er í eðli sínu árásargjarn verður það alla sína ævi. Hinsvegar er hægt að kenna honum að halda aftur af þeim eiginleikum—en aðeins upp að vissu marki.

Flestir hundaeigendur harðneita að trúa þessu. “Ef ég ætti bara einn dollar fyrir hvert skipti sem einhver hefur sagt við mig!” . . . “Þetta fer bara eftir uppeldinu á hundinum!” . . .  væri ég ríkur maður”. En, nei. Þetta fer allt eftir því hvernig DNA –búskapurinn í þeim er. Hundur sem er fúll og argur að geðslagi verður það svo lengi sem blaktir í honum öndin. Það skiptir hann engu hversu vel er gert við hann. Hundur sem hefur staðfasta lund mun verða það eins lengi og hann lifir. Umhverfi hans skiptir geðslag hans engu máli.

Góður undirbúningur, þjálfun og umgengnisvenjur munu hjálpa til við að þróa jákvæða þætti í fari hundsins, en þeir verða þá að vera til í skapgerð hundsins. Að láta hundinn elta bolta er góð aðferð vegna þess að það er grunnurinn undir ýmsu sem hundurinn getur lært af síðarmeir. Það eru ekki allir hundar spenntir fyrir því að elta bolta. Ef hundurinn hefur gaman af að elta bolta getur góður tamningamaður aukið við hann og notað boltann til að auka við þá eiginleika hundsins sem góð tamning gerir, en hann verður að hafa einhvern áhuga á leiknum sjálfur. Þann áhuga er ekki hægt að auka við með þjálfun.

Raunverulegt Schäferhunda fólk er ávallt að vekja upp vinnusemi hundsins. Skilningur á geðslagi er skilyrði þess að rækta hunda sem eitthvart vit er í að rækta fremur en að bæta alltaf meira og meira af gagnslausum hundum inn í heim sem er yfirfullur af hundum.

1.1.    Geðslag prófað:
Í leit að góðum hundi er þýðingarmikið að finna hund með rétt geðslag. Venjulega á þetta að vera auðvelt, en settu samt ekki of mikið traust á það. Stundum getur það reynst erfitt. Það getur komið fram í því að hvolpurinn “frjósi”. Þetta er stundum kallað “ósjálfstæði”. Það þarf ekki að vera svo. Hundurinn er stundum bara að sýna að honum líki ekki það sem af honum er krafist. Stundum er hann ekkert hrifinn af því að einhver honum ókunnur leggist á hnén og kalli á hann að koma til sín. Og aðrar aðferðir sem eiga að hjálpa hundinum til að aðlagast nýju umhvefir geta reynst taugaveikluðum hvolpi erfiðar í upphafi. Þá er mikilvægt að vera ekki að leika við aðra hvolpa að honum ásjáandi. Hann verður enn óstyrkari og álítur jafnvel að hann sé ekki velkominn.

Enn áhrifameira er svokallað P.A.W.S. Working Dog Evaluation. (Aðferð til að finna geðslag hunda). Þessi aðferð er kennd við Jona Decker sem leggur sig fram um að finna hvað það er sem drífur hundinn áfram við að elta bráð. Í þeirri leit segir hún að það sé ekki til nein fullkomin leið til þess að prófa slíkt, en sumar aðferðirnar eru verri en aðrar. Reyndir hundaþjálfarar svokallaðra vinnuhunda finna sér flestir upp sínar eigin aðferðir við að þjálfa hvolpa og unga hunda. Besti leiðbeinandinn þar er saga hundsins eða þeirrar ættar sem hann tilheyrir. Hverjir eru foreldrar hundsins, foreldrar þeirra og áfram aftur í ættir? Þegar þú minnist þess að geðslag hundsins felst í genunum sem hann fær í arf frá forfeðrum sínum er vísast að kynna sér ættartölu hans.

Mundu að hundar eru ekki framleiddir í verksmiðjum. Þótt hundurinn sé Schäferhundur, þýðir það ekki að hann sé ófrávíkjanlegur vinnuhundur. Ég fæ símtöl frá hundaeigendum sem skilja ekki að hundurinn þeirra sé ekki góður vinnuhundur, ekki góður verndarhundur, ekki góður hlýðni hundur—eða nánast hvað sem er. Eitt dæmigert símtal kom frá manni sem átti sex mánaða Schäferhvolp. Hann hafði keypt hundinn einkum til að þjálfa hann í að gefa honum sjálfum vernd. Hann þurfti á hjálp að halda. Hundurinn var dauðhræddur við ókunnuga. Í hvert skipti sem einhver ókunnugur kom í heimsókn hljóp hundurinn í felur.

Þegar hundurinn er úti að ganga með eiganda sínum og þeir hitta fyrir einhvern sem hundurinn þekkir ekki, felur hundurinn sig bak við eiganda sinn. Hann heldur enn að það eina sem hann þarfnast sé hinn rétti eigandi. Ég spurði nokkurra spurninga og komst að því að hundurinn var afsprengi AKC- American showlines. AKC biður ekki um neina vinnutitla fyrir sín afsprengi. Foreldrar hvolpsins höfðu aldrei fengið neina verndarþjálfun. Það höfðu afinn og amman ekki heldur fengið. Það var ekkert í geðslagi þessa hvolps sem benti til þess að hann hefði neitt í sér sem benti til þess að hann byggi yfir þeim eiginleikum. Samt var sá sem seldi ágætlega hamingjusamur yfir að taka við peningum fyrir hvolpinn og segja honum jafnframt að hann væri að kaupa verndarhund.

1.2.    Uppeldi á hvolpi.
Hvað er þá af því sem leggja skal áherslu á í hvolpauppeldi ef geðslag allt er áunnið? Svo við notum almenna líkingu, þá eru ekki allir fæddir til að gerast Ólympíuafreksmenn? Við mennirnir höfum ekki allir réttu líkamsburðina til þess eða genetisku eiginleikana. En ef þú hefur hlotið náð almættisins, gæti rétt þjálfun hjálpað þér til að ná þangað.

Það sama gildir um hvolpa eða hunda. Ég vil nefna hér dæmi um átta vikna hvolp sem ekki hafði þekkt neitt annað en að alast upp í búri. Hún (hvolpurinn) hafði haft afar lítið af mannlegum samskiptum að segja í búrinu. Aðallega fór það fram þegar hreinsað var undan henni og henni gefið að eta. Þegar hún var átta vikna gömul sýndi hún manninum mikla athygli og dróst að honum eins og hægt var inni í búrinu sínu. Ræktandinn var að vonast til að geta notað þennan hvolp sem einskonar sýnikennslu. Þessvegna hafði hann fengið þetta uppeldi. Í hvert skipti sem hvolpurinn kom nálægt ókunnugum af vinskap fékk hún extra klapp og atlæti frá eiganda sínum. Það þarf því ekki að undra neinn að hundurinn varð að mjög vingjarnlegum hundi sem varð hvers manns hugljúfi. Genin voru þarna öll til staðar og ræktandinn lagði bara aukna áherslu á það sem þarna var fyrir.

Hver hundur hefur sérstakan persónuleika. Það er ekki sama og geðslag. Persónuleikinn þróast gegnum samskipti við annað líf, menn og málefni og sérstaklega umgengni við menn. Hvolpar sem eru uppaldir við gott líferni og gott atlæti öðlast góðan persónuleika. Hundar sem ala aldur sinn of lengi í búrum verða niðurdregnir. Þá vantar hressileika og glaðlyndi sem við viljum sjá í þeim.

Þetta sýnir okkur að félagsskapur og samskipti sem byrja snemma skila sér. Ekki vegna þess að slíkt skapar ekki geðslag, heldur vegna þess að slík samskipti geta byggt upp og eflt það sem innifyrir býr og samskipti skapa skilyrði fyrir auknum og betri persónuleika. Góður undirbúningur meðan á hvolpastiginu stendur gera sterkan og góðan hund betri. Hinn sem er ekki eins sterkur byggist upp að því marki sem hann er byggður fyrir að ná.

2.    Drive, hvöt (Áræðni og framkvæmdasemi)
Hlýðniþjálfarinn sem hafði áhuga á vinnuhundum fór og athugaði tvo hvolpa sem báðir áttu sér góða ættartölu. Eftir að hafa unnið með þá báða um nokkurn tíma ákvað hún að tíkin væri betri sem vinnuhundur. Hún hafði rétta áræðni og framkvæmdasemi (drive). Ég fór og leit á þessa báða hvolpa. Ég komst að annarri niðurstöðu.

Litla tíkin var mjög indæll hvolpur. Hún var mjög hænd að fólki en var ekkert svo mikið fyrir að elta bolta. Hún hafði meiri áhuga á að eltast við tuskudruslur. Hinn hundurinn, sem var karlkyns, hafði miklu meiri áhuga á boltanum eða bara öllu sem hreyfðist. Hann leitaði stanslaust að boltanum. Hann var allstaðar og leitaði að boltanum um allt.

Hlýðniþjálfarinn hafði misskilið tíkina. Hún áleit að tíkin væri góður vinnuhundur. Hún misskildi áhuga hennar á að láta taka eftir sér væri vinnusemi. Karlkynshundurinn sýndi mikinn áhuga á veiðiskap og hvernig átti að kynna sér atriði sem hann var ekki vanur. Hann bar með sér að hann gæti orðið góður Schutzhund. Þjálfarinn á staðnum sagði að tíkin þyrfti að losna undan karlhundinum vegna þess að hann hefði “to much drive”, eins og hún kallaði það. Hvað var hún að meina? Hvolpurinn hafði verið að skemma hluti í húsinu. Hún túlkaði það þannig að eyðileggingarhvöt hennar stafaði af því að tíkin byggi yfir svo mikilli framkvæmdasemi.

Dýralæknir sagði að Schäfer karlhundurinn hennar væri “very drivey”. Þýðir það að hundurinn sé spenntur fyrir að elta bolta? Nei, það er ekki málið. Hún meinti að hundurinn hefði mikla orku. Einu sinni enn þurfum við að gæta þess að við öll séum að nota sama tungumálið yfir það sem við erum að ræða um. Hundaþjálfarar tala mikið um “drives” (framkvæmdasemi). En um hvað er fólk að tala? Hvernig kemur þessi mikla framkvæmdasemi fram? Of oft er bara verið að tala um hunda sem láta mikið fyrir sér fara en athyglin er út um víðan völl, ótamin og lítil stjórn á henni. Þegar við erum að tala um vinnuhund erum við að tala um þol og þrautseigju og orku sem hægt er að temja og hafa stjórn á.

“Drive” er hin innri þörf sem fær hundinn til að vinna. Allir hundar búa yfir “drive”, það er innri þörf fyrir hreyfingu, það sem skilur á milli er að hverju þessi orka beinist. Hugsaðu um orkuþörfina sem framkvæmdasemi. Hundurinn vill gera eitthvað, en hvað? Ég hef lært að orkuþörf hundsins beinist að þessum fjórum hlutum í öllu venjulegu: Þeir eru: Staða hundsins í flokki með öðrum hundum; elta hluti, ná honum og sýna yfirburði; verjast árásum; og mynda varnarhóp með öðrum hundum þegar hætta steðjar að. Athugið að þessir þættir höfða allir til þess að verjast og lifa af í náttúrunni. Hundurinn verður að hafa viljann og getuna til að drepa sér til matar. “Drive” þessarar gerðar eru oft misskilin, stundum með slæmum afleiðingum. Þetta býr í öllum hundum, misdjúpt að vísu.

2.1.    Rank Drive
Þetta vita flestir um. Þetta varðar að vera foringi fyrir hópnum eða ekki. “Rank Drive” varðar stöðu hundsins í flokknum. Hundur sem stendur hátt í flokknum mun fyrr eða síðar grípa tækifærið og seilast til æðstu metorða. Það er vel hægt að sjá stéttaskiptingu í flokki hunda. Sumir hundar leggja allt undir. Þeir berjast til síðasta blóðdropa til að ná toppnum í flokki hunda. Þrátt fyrir það beygja þeir sig af fullri virðingu undir manninn. Enginn hundur reynir að keppa við manninn um leiðtogahlutskipti.

En það þýðir ekki að sumir hundar reyna að hafa sín áhrif á manninn. En munið að það er alltaf spurning um hve langt hann gengur. Hér er um miklar víðáttur að ræða, allt frá misjafnlega mildri andúð á að annar hundur en hann sjálfur reyni að koma sér í mjúkinn hjá þeim hundi sem er að reyna að koma sér á framfæri við húsbóndann til þess að ráðast á hann með klóm og kjafti. Greindir hundar sem verða að teljast “”high rank” hundar geta verið mjög skemmtilegir í tamningu vegna þess að þeir búa yfir miklu sjálfstrausti. En það getur líka gengið nokkuð langt og er ekki alltaf gott fyrir þann sem er að byrja í þessum bransa að finna mörkin þarna á milli. Þegar þú ert að temja hinn venjulega en greinda hvolp, geta þeir verið afar skemmtilegir og þeir njóta þess að sýna það.

Annað sem þú munt oft heyra talað um er “harðneskja”. Sölumenn munu reyna að selja þér hvolpa sem eiga foreldra sem eru “super hardness”. Rétta lýsingin á “harðneskjunni” er glaðlyndi og fjör. “Harður hundur” er hundur sem ekki lúffar strax undan stressi. Sumir kalla þessa “hörku”, sem þeir sjá í hundum í heimi vinnuhunda, merki um að hér sé um erfiðan hund að ræða.

Mjög “mildur” hundur er svo hinn sem gugnar eða lúffar við minnsta leiðréttingu í tamningu. Þeir sem eru að byrja í þessum bransa gengur yfirleitt betur að ná sambandi við hund sem er harður af sér og lætur sér lítt bregða þótt hann mæti harðri tamningu. Mildur hundur reynir jafnvel að fela sig þótt hann mæti lítilli andstöðu. Eða, til að rugla þig algjörlega í ríminu, þá eru til hundar sem sýna af sér grimmd gegn stjórnsemi þinni.

2.2. Defence Drive, Verndarhvöt
Þessi eiginleiki hundsins er erfiðara að átta sig á en margan grunar. Hann höfðar til þess eiginleika hundsins til að verja sjálfan sig. Hann er innfæddur eiginleiki. Ef þennan eignleika vantar í hund hlýtur hann að teljast misheppnuð útgáfa af hundi. Þótt við búumst ekki við að sjá mikið af svona verndareiginleikum í Labradorhundi þýðir það ekki að hann geti ekki búist við að menn geti reynst honum illa. Þótt hann sé ekki á varðbergi gegn manninum spilar þar inn í bæði hve sterkt þetta “drive” hans er ásamt hversu djúpt er á þröskuldinum áður en hann lítur á að sér sé ógnað. Við munum fara betur ofan í það í næsta þætti.

Þegar hundur er í þessum verndarham sýnir hann það með ógnandi tilburðum. Hann geltir, urrar eða glefsar, hárin rísa og hann getur orðið illur viðskiptis. Ef hárin á hrygg rísa gæti hann alveg eins búist við að hann muni þurfa að berjast fyrir lífi sínu. Hundur sem finnst öryggi sínu ógnað er undir miklu stressi. Hann gæti þurft að vera að berjast við andstæðar tilfinningar. Eyrun sveiflast oft í takt fram og aftur. Hann getur gelt, hreyft sig aftur ábak og svo áfram. Þetta er ástæða þess að góður hundaþjálfari sýnir aldrei af sér að hann ætli að taka hvolpinn fyrr en hvolpurinn hefur náð þeim þroska og sjálfsöryggi að hafa hemil á streitu sinni. Svona ástand er ekkert gamanmál fyrir hundinn. Því miður sýnist það vera hið besta skemmtiefni fyrir marga hundaeigendur.

Það er samt auðvelt að skilja hversvegna fólk misskilur varnarleik hundsins og telur hann bara vera náttúruleg viðbrögð. Munið samt að hundur sem er í vörn finnur fyrir ógn. Öll hans viðbrögð, urr, gelt og önnur varnarviðbrögð hafa eitt sameiginlegt markmið. Það er að reka ógnvaldinn í burtu. Um það snýst allur varnarleikurinn. Hundurinn er að reyna að fá ógnvaldinn til að flýja af hólmi. Besta lýsing sem ég hef heyrt um þetta er að líkja hundinum sem er kominn í þessa varðstöðu við úlf sem er innikróaður af grábirni. Úlfurinn veit að hann getur ekki unnið bardaga við skógarbjörn en hann er ekki í aðstöðu til að flýja heldur. Hann gerir sig því eins breiðan og hann getur í þeirri von að björninn komi sér í burtu.

Ef hundurinn veit um flóttaleið þá notar hann hana. Það er mjög þýðingarmikið að eigendur hunds í varnarstöðu viti þetta. Því miður halda margir að hundur muni ekki bíta nema hann sé orðinn afkróaður, en það er bara ekki rétt. Það sem gildir hér er hvernig hundurinn sjálfur lítur á málið. Ef hann er orðinn þess fullviss að hann muni ekki sleppa, að hann sé með yfirburðastöðu eða jafnvel að hann muni “missa andlitið”, getur hann vel átt til að bíta. Allt getur skeð þegar hundurinn er að verja sjálfan sig? Jú, það er rétt og það er gott fyrir hunda sem eru að verja heimili og hús að búa yfir þessum eiginleikum. Og hversvegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að sjálfsbjargarviðleitnin sem sýnir sig í vörn hundsins fyrir sjálfan sig er ein af grunnstoðum hans til að vernda stofninn. Ef hundurinn er ekki að þrotum kominn, eða bara leiðist, er varnarbaráttan aflið sem leiðir til þess að hundurinn fórnar sér fyrir hús og húsbændur sé það til umræðu. Allt sem máli skiptir er hvar þröskuldurinn í geðslaginu liggur.

Við skulum gefa okkur það að hundurinn sé taugasterkur og hefur háan þröskuld. Hundur sem hefur sterka varnamúr gegn sjálfum sér hefur allt til að bera til að verða góður varnarhundur fyrir þá sem hann veit að er hans heimilisfólk. Mundu þetta þegar einhver segir þér að hundurinn hans urri að fólki. Það sýni að hann sé góður til að verja heimili sitt og sinna. Til að sanna að svo sé þarf hann að horfast í augu við slíka ógn. Ef hundurinn er undireins kominn í vörn fyrir sjálfan sig eingöngu, en reynir ekkert til að verja aðra á heimilinu, ertu með ónýtan hund. Þú ert með “spook” hund.

2.2.    Prey Drive, veiðihvöt
Hér er líka eiginleiki sem er misskilinn jafn mikilvægur og hann er. Schäferhundur með lágan stuðul af veiðieðli er glæpur gegn náttúrunni. Prey Drive (veiðináttúra) hundsins höfðar til eðli hundsins til að elta, ná veiðdýrinu og drepa það. Þetta er náttúrlegt fyrirbæri og án þess yrði ekkert um veiðihunda, Schutzhund, lögregluhunda, björgunarhunda auk svo margs annars.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að fjöldi hunda eru líflátnir árlega vegna þess að enginn skildi veiðieðli þeirra. Fólk heldur oft að hafi hundur drepið kött eða kanínu muni hann fyrr eða síðar fara að huga að stærrri veiðibráð, jafnvel hvítvoðungum, sem er að sjálfsögðu hið mesta bull. Hundur sem er með eðlilega veiðináttúru mun aldrei ráðast á eða drepa börn né fólk, nema undir sérstökum sjúklegu álagi eða að hundurinn sé sérstaklega taminn til þess. Þetta þýðir að hundurinn verður að kunna að greina á milli árásarmanns og barns. Flestir hundar gera það að sjálfsögðu fái þeir eðlilega umgengni meðan þeir eru hvolpar.

Hvolpur mun aldrei líta á þær lífverur sem hann elst upp hjá sem veiðidýr í æsku sinni. Það á einkum við um aldurinn frá 3 til 5 vikna. Þetta gerir þjálfun svo mikilvæga. Það er afar mikilvægt að þeir sem hvolpinn eiga láti hann umgangast börn eftir því sem hægt er. Hundur sem ekki þekkir til barna, en er með háþróaða veiðináttúru, getur auðveldlega tekið grátur barns sem merki um sært dýr. Ef þú átt lítinn drápshund er trúlega gott fyrir þig að lesa sögu Sadies; I Love My Dog, but . . . ?

Hvað er svona mikilvægt hvað veiðináttúru varðar annað en að hún sé hundinum mikilvæg? Leikur og veiðináttúra eiga mikið sameiginlegt, eða með öðrum orðum; þegar hundur er í veiðiham líður honum ágætlega. Hundur sem er með háan veiðináttúrustuðul elskar að elta bolta og nýtur þess ágætlega. Þegar þú hendir bolta, eltir hundurinn hann af miklum áhuga? Ef svo er, er það bara hið besta mál. Fari boltinn út fyrir sjónarsvið hundsins, heldur hann áfram að leita, og ef svo er, hve lengi? Hættir hann fljótlega og gleymir bara boltanum? Þeir hundar sem leita áfram eru þeir sem hafa veiðnáttúruna í sér. Þetta er eiginleiki sem hægt er að virkja áfram og gera hundinn að virkum vinnu-eða leitarhundi eins og SAR.

Veiðináttúran er góður grunnur undir verndarþáttinn í hundinum. Munið að veiðináttúran er skemmtun hundsins meðan verndarnáttúran er það ekki. Hún er líkara skyldustarfi. Hundur sem er að fylgja eftir veiðináttúru sinni urrar ekki. Hann getur látið út úr sér gelt, en það er meira svona hátóna og gleðilegt gelt. Hann gerir það oft þegar veiðibráðin er komin í varnarstöðu og tekur til varna. Þá er hundurinn að reyna að fá dýrið til að halda áfram flóttanum svo hann geti haldið eltingaleiknum áfram. Takið eftir líkamstjáningu hundsins. Hundur sem er tilbúinn að bíta fórnardýrið finnur að hann er með yfirtökin. Hann er ekki stressaður. Hann heldur eyrunum uppi, skottið er uppi. Hann veit að hann hefur yfirtökin.

Í Schutzhund er það bitið sem ákveður hvernig hann metur viðfangsefnið. Það er ekki fyrr en hundurinn hefur orðið fulla trú á sjálfum sér sem hjálparmaðurinn (fórnardýrið) getur farið að sýna hundinum fulla andstöðu, sem helst í hendur við verndarsjónarmið hundsins. Ef hundurinn er of stressaður, getur handlerinn (þjálfarinn) skipt um ”gír”. Hann getur gefið hundinum til kynna að veiðbráð og veiðihundur hafi lokið leik sínum með því að breyta algjörlega um líkamshreyfingar og stöðu sína.

Pray Drive, eins skemmtilegt og notadrjúgt það kann að sýnast, mun ekki gera neinn hund sjálfvirkt að veiðihundi. Hundur sem er í svona leik, og veit að þetta er bara leikur, vantar sjálfsöryggi. Hann er að einbeita sér að leikföngum fremur en árásarmanni eða dýri. Annað vandamál við Pray Drive er að það getur orðið hundinum þreytandi til lengdar. Hann gæti hreinlega hætt að hafa gaman af þessu. Verndarþátturinn gæti breytt þessu. Enginn hundur þreytist á því að verja sjálfan sig. Verndarþátturinn eykur við veiðináttúruna í hundinum.

Það eru til ótal vinnuaðferðir þar sem veiðináttúrunni er grunnurinn undir þjálfuninni. Ef hundurinn býr yfir veiðnáttúru ertu með góðan grunn undir hlýðni og að sýna að þú metir við hann hversu vel hann hlýðir þér. Mundu bara það að Prey Drive-aðferðin er góður staður fyrir hundinn til að láta sér líða vel.2.3.    Pack Drive, flokkshvöt
Við vitum að hundar eru félagsverur, rétt eins og úlfarnir sem eru ættfeður þeirra. Þeir vilja helst vera hluti af flokki annarra hunda. Eins og í öllu öðru “drifi” eru hundar breytilegir. Þeir taka sér mismunandi stöðu í flokki hunda. Hundur sem er sjálfstæður og óháður, jafnvel sinni eigin fjölskyldu, er ekki hátt metinn í flokki hunda. Félagslyndur hundur sem vill taka þátt í öllu sem fólk er að gera yrði hátt metinn í flokki hunda.

Hundar sem eru nálægt “endunum” ef svo má segja, eru ekki góðir vinnuhundar. Hundur sem er með lágan flokksvilja nær ekki góðu sambandi við húsbónda sinn. Hann verður erfiður í tamningu. Sumar hundategundir eru sjálfstæðir og gengur oft illa að fá þá til að hlýða. Flestir Schafer hundar tengjast húsbændum sínum sterkum böndum.

Á hinum endanum eru hundar sem taka því illa að vera skildir eftir einir, þótt ekki sé nema stutta stund. Sumir geta ekki verið einir eitt augnablik. Hundurinn allt að því tryllist. Geltir stanslaust og sýnir jafnvel af sér eyðileggingarhvöt þótt eigandinn skreppi aðeins inn í annað herbergi og loki hurðinni. Hundar sem þannig haga sér eru bara byrði og til einskis nýtir. Það er hægt að laga þetta eitthvað með því að gefa hundinum eitthvað sem lækkar í honum taugaveiklunina.

Pack Drive er spurning um hvað þú vilt sjá í hundinum þínum. Viltu hund sem er svo háður þér að hann getur vart af þér litið, eða hund sem getur haft ofan af fyrir sér sjálfur? Áður en komið er út á endann á þessu dæmi er vert að geta þess að hundur sem á gott með að aðlagast öðrum hundum er auðveldara að láta hlýða sér en hund sem er sjálfstæðari. Of félagslegur hundur getur hamlað öðrum eiginleikum. Sjáðu slíkan hund fyrir þér í björgunarstarfi. Slíkur hundur verður að geta farið frá eiganda sínum og haldið áfram að leita, jafnvel tímunum saman. Félagslyndi hundurinn þarf sífellt að vera að athuga hvar eigndinn er. Leitarþörfin fer út og suður. Þetta hefur líka með taugastyrk hundsins að gera. Komum að því síðar.

Pack Drive (félagslegi hundurinn) er auðveldari í Þjálfun. Það er vegna þess að hundurinn er alltaf hræddur um að hann verði rekinn úr flokknum. Sjálfstæðari hundur skorar alltaf betur í Rank Drive (Skora hátt í Rank Drive lýsir sjálfstæði hundsins) Hundurinn álítur að við séum hér til þess að vegsama hann, ekki að hann sé hér til þess að auka okkur ánægjuna.

Auk þessa eru til fleiri “drive”. Það eru einkenni allra hunda. Við reynum að skilja hvað í hundinum býr til þess að hafa af honum sem best not. Einkum það “drive” sem greina hinn raunverulega Schäferhund (German Shephard Dog) frá öðrum hundum. En athugaðu að “drives” ein og sér búa ekki til Schäferhund. Gott “drive” (framkvæmdasemi og áhugi) koma einungis að gagni þegar þröskuldurinn og taugar hundsins eru á réttum stað, svo að segja.

3.    Að hafa hausinn í lagi.
Þú munt heyra þetta, “að hafa hausinn í lagi” þegar talað er um hunda og að ekki sé talað um á hundasýningum. “Minn hundur er með hausinn í lagi”. Þetta höfðar til þess að segja að bæði þröskuldurinn (sjálfsstjórn og húsreglur) og taugar (hundurinn hefur stjórn á sér) séu í lagi. Hundur sem er með hausinn í lagi lætur ekki koma sér auðveldlega úr jafnvægi. Hann er í jafnvægi og rólegur að eðlisfari. Hann getur búið yfir ágætis “drive”, en hann ræður alveg við það. Notar það sem við á, en er ekki sí og æ að láta það í ljós. Þótt ég væri með Þrumarann minn úti og hann væri fullur af “drive” til þess að bíta, og þú laumaðist aftan að honum og kipptir í skottið á honum, Þrumarinn mundi ekki bíta þig. Það er eitt af því sem er ekki í hundi sem “er með hausinn í lagi”. Hann er kannski undir miklu álagi, en hann veit að þú ert ekki hættan sem hann er að leita að. Það er vopnaði ræninginn sem allt beinist að.

Berðu svona hund saman við hund sem tryllist ef ókunnur maður gengur eftir götunni framan við húsið hans, eða sér hund ganga fram hjá. Eigandi hundsins kemur til að athuga hvað gerir hundinn svona taugaveiklaðan, og sjá, hundurinn bítur eiganda sinn. Hvað hefur farið úrskeiðis? Hundurinn hefur enga sjálfsstjórn. Taugar hans þola ekki álagið. Allt er skyndilega orðið ógn. Hann bítur allt sem nálægt honum kemur. Þetta er algengara en fólk gerir sér ljóst (Lesið sögu Rudy´s í I Love My Dog, But . . .). Sumir hundaþjálfarar munu segja að þetta sé normal hegðun hjá hundi með “high drive”, en það er bara ekki rétt. Hundurinn er of stressaður til að takast á við normal kringumstæður. Hann hefur tapað áttum, týnt raunveruleikanum. Þetta er “crazy dogs solution”. Hann er að láta í ljósi hátt og skýrt að þröskuldur hans er allt of lágt stilltur og að hann þoli ekki álag. Að bíta eigandann í stað þess sem upphaflega olli honum öllu þessi uppnámi kallast “displacement aggression” (hann gefur sér ekki tíma til að gera sér grein fyrir í hverju ógnin liggur) Vel þjálfaður hundur með þröskuldinn þar sem hann á að vera gerir ekki svona mistök. Þetta snýst ekki um “drive”. Þetta snýst um þröskuld sem er hættulega lágt stemmdur.

4.    Taugar
“Slíkar skepnur eru undir öllum kringumstæðum kvöð á eiganda sínum. Hann hlýtur að bera skömm vegna hundsins síns, sem er hundinum sem tegund til minnkunnar. Undir engum kringumstæðum skal nota slíka hunda til undaneldis.” Max von Stephanitz, The German Shepherd Dog in World and Picture (1925).

Kjarni Schäferhunds er sá karakter sem í hundinum býr. Hættulegasti eiginleiki hans er taugaveiklun. Því miður getur þetta leitt til stjórnleysis. Þú ræður ekki við hundinn. Von Stephanitz varaði við þessu fyrir löngu síðan. Hann sagði að undaneldi undan taugaveikluðum hundum væri ekkert annað en niðurlæging á hundastofninum yfir höfuð.

Eins og alltaf skaltu líta á taugaveiklun sem eitt af þeim atriðum sem getur fylgt hundinum, eða kynstofninum, eftir. Ástand taugastyrks er ekki nákvæmlega sá hinn sami meðal hunda, hann breytist, en einhver mörk verður að setja. Til þess að standast þau mörk sem sett eru í Þýskalandi verður hundurinn að gangast undir próf sem sýna að hann sé yfir þeim þröskuldi (taugaveiklun) að hann standist það að geta heitið kynbótahundur. Er þetta fullkomið system? Nei, það er það ekki, en það er hið besta sem völ er á.

Hvað er taugaveiklaður hundur? Til að einfalda dæmið skulum við líta á hund sem er taugaveiklaður. Hann sýnir flóttalega tilburði eða árásarhneigð allt eftir því sem honum sjálfum finnst vera við hæfi, sama hvort um menn eða hluti að ræða. Þetta á bæði við um hundinn sem felur sig og hinn grimma hund sem setur sig ekki úr færi með að bíta. Ekkert er verra fyrir hundaræktanda eða hundaeiganda að heyra en að hundurinn hans sé taugaveiklaður (lágan þröskuld). Flestir þræta fyrir þetta fram í rauðan dauðan og segja þetta taugaveiklun og þvælu í þeim sem kvarta undan hundinum. Eigandinn á að geta séð þetta sjálfur ef hann veitir hundinum athygli.

Allar bjöllur í þínu eigin höfði eiga að fara af stað þegar þú heyrir hundaræktandann fara að kenna umhverfinu um hegðun hundsins. Ef hvolpur ýlfrar eða vælir og reynir að skríða í burtu þegar þú beygir þig niður til að klappa honum eða taka hann upp er næsta víst að hundaræktandinn segir þér að gera þér ekki áhyggjur. Hvolpurinn er svolítið feiminn og þarf tíma til að kynnast þér. Og hann segir þér sjálfsagt líka að þetta sé bara normal hegðun hjá hvolpinum. Eða þegar hálfvaxinn hvolpur sem geltir og gerir sig jafnvel líklegan til að hlaupa til og bíta bláókunnugan mann sem gengur rétt hjá, vegna þess kannski að hann er með skrítinn hatt á hausnum, eða hundurinn eigi svona vondan dag einmitt núna, eða skynji eitthvað illt í fari þess sem framhjá fer og “þykist” vera að verja þig.

Viðbrögð hunds gegn ókunnugum hafa alltaf þýðingu. Í öllu venjulegu gengur ókunnur maður framhjá þér og þínum hundi án þess að veita hvorugum ykkar athygli. Fer hundinum eins? Það færi best á því að svo sé. Nokkur forvitni er af hinu góða, en ógnandi tilburðir, urr og gelt sýna bara að hundurinn er með mjög lágan þröskuld. Hann er taugaveiklaður, og getur verið hættulegur.

Þú verður að skilja að taugaveiklun í hundi er ólæknandi. Þegar hundur hleypur í burtu frá einhverju sem hann sjálfur álítur hættulegt er ekki um þjálfunarvandmál að ræða, hér er það geðslag hundsins sem ræður. Með mikilli þjálfun getur þú kennt hundi að hafa hemil á taugaveiklun sinni, en aðeins við sérstök og ákveðið efni sem hann smám saman venst. Þú ert ekki að reisa upp hjá honum innbyggða varnarþröskuldinn. Til að nefna dæmi þá getur þú alveg kennt hundi að flýja ekki þótt hann sjái mann í hjólastól, hann venst því smátt og smátt. En ef sá sem í stólnum situr missir skyndilega bók á gólfið, máttu alveg eins búast við að sjá hundinn hlaupa ýlfrandi í burtu.

Við þjálfun geta vissir eiginleikar komið í ljós en þeir breyta aldrei geðslagi hundsins. Ef það eru veikleikar í eðli hundsins liggja þeir alltaf undirniðri og koma fram undir stressi. Og það sem okkur vantar er að finna hvort hundurinn er þeirrar gerðar, finna genin hans svo að segja. Það er þessvegna sem Schutzhund próf þykir best til að finna slíka eiginleika. Það er í gegnum Schutzhund sem öll próf eru gerð. Þjálfunin sjálf gefur tilefni til að meta taugastyrk hundsins. Það er ekki bara að sjá hvernig hann bregst við skothvellum eða öðrum prufum sem við leggjum fyrir hundinn sem við prófum taugastyrk hans. Við prófun líka hvernig honum gengur að einbeita sér að því að rekja slóð með hóp af fólki umhverfis hann og í umhverfi sem honum er ókunnuglegt. Hvernig honum tekst til að hlýða því sem honum er sagt að gera þegar fullt er af ókunnu fólki allt um kring eða þegar bílar þeyta flautur sínar? Það eru til margar gerðir truflana sem geta sett hundinn út af laginu.

Nú er það ekki svo að Schutzhund sé fullkomið próf, en það eru alltof margir hundar sem fá á sig hina og þessa titla hjá reyndum hundaþjálfurum, en Schutzhund titillinn er sá besti. Allt of oft eru hundar notaðir til undaneldis án þess að hafa staðist nokkur próf. Í USA fer hundatamning að miklum hluta eftir þessum forsendum; “Ég veit hvað ég vil fá svo ég rækta það bara sjálfur”. Það er merkilegt hversu margir Schäfer ræktendur sem skilja ekkert í hversu mikið taugastyrkur hunda hefur að segja. Þeir skilja ekki að hundar þurfi á taugastyrk að halda rétt eins og menn. Þeir horfa á hundinn sinn á sinni eigin lóð og ákveða að hundurinn þeirra sé bara stórfínn hundur. Þeir sem kaupa hvolpa af þessum mönnum virðast ekki skilja þetta heldur.

Venjulegi hátturinn á svona viðskiptum er sá að sá sem ætlar að kaupa hvolp fer til hundaræktandans til þess að líta á safnið sem hann á til. Kaupandanum er sýndur hópur, venjulega svona sex, af hvolpum sem allir leika sér saman. Þeir líta allir ágætlega út, en þetta er líklega versta aðstaðan til að velja sér hvolp. Þeir líta allir betur út þarna en þeir koma nokkurntíman til að gera þegar heim er komið innan um dótið sitt og vita að það er fylgst með þeim. Það er ekki fyrr en þú ert búinn að velja þér þinn hvolp og hann er farinn úr sínu umhverfi sem það fer að renna upp fyrir þér hvað þú ert kominn með í hendurnar.

4.1 Sound Sensitivety (Hljóðviðkvæmni)
Hljóðviðkvæmni! Við erum að tala hér um óttaslegin viðbrögð við hljóðum. Það þarf ekki að þýða að taugakerfið sé ekki í stakk búið til að þola slíkt per se. Heldur að það lýsi því að taugakerfi hundsins sé ekki sterkt. Þetta er ástæða þess að athuga hvernig Schutzhund bregst við skothvellum. Viðbrögðin við snöggum, háum hvellum eru breytileg. Samt er hægt að finna dæmi um viðbrögð við hljóðum sem hafa lærst gegnum tíðina en eru ekki eðlislæg viðbrögð hundsins. Til dæmis getur óreyndur hundaþjálfari sem leggur áherslu á harða þjálfun, til dæmis með því að skjóta í tíma og ótíma. Þannig getur hann fengið hundinn til þess að venjast þeim, þótt hann sé annars viðkvæmur og fælinn að upplagi gegn slíkum hávaða. Þetta á hver hundaþjálfarinn að geta sagt sér sjálfur. Lærð viðbrögð eru ekki eins og þau sem liggja í eðli eða geðslagi hundsins. Þetta getur komið í ljós hjá hundi sem hefur fengið slæma tamningu í upphafi þegar hann upplifir byssuskot. Ef hann sýnir óttabrögð aðeins við þessu sérstaka tilfelli með byssuskotin má eins gera ráð fyrir að þau viðbrögð séu lærð gegnum tamninu, ekki að þau liggi í eðli hans. Það getur verið erfitt að ná þessu út úr hundinum, en það á að vera hægt sé hundurinn að eðlislagi hraustur og heilbrigður. Hundar sem vanist hafa skothríð, eins og lögregluhundar geta þróað með sér ónæmi gegn slíku, en aðeins ef það liggur í eðli hans en er ekki hægt ef því hefur verið þröngvað upp á hann en liggur ekki í geðslagi hans að þola slíkt. Þú munt sjá að þetta þrönga sjónarsvið höfðar ekki almennt til hunda. Hundar eru ekki almennt innan um skothríð glæpagengja, en hundar sem geta auðveldlega látið sem óvæntar drunur í bíl eða rakettur á áramótum sig litlu skipta, en fer svo allur í rusl á skotæfingum. Han hefur að öllum líkindum einhverntíma orðið fyrir óskemmtilegum áhrifum þar.


4.2. Líf með veikgeðja hundi
Þetta er ekkert grín. Taugaveiklaðir hundar eru óútreiknanlegir. Blandaðu saman hundi sem er bæði taugaveiklaður, með háan verndarstuðul og lágan þröskuld. Þú ert með stórhættulegan hund á þínu heimili. Hvað er það sem gæti “startað” svona hundi? Eigendur verða alltaf miður sín þegar hundurinn þeirra sýnir af sér árásargirni sem stafar af ótta. Þeir finna sér alltaf afsakanir. Þetta er varnaraðgerð hundsins. Hann jafnvel “sér” eitthvað sem setur varnarkerfi hans í gang. Eigandi sjö mánaða gamals hvolps frá einhverju afbrigðilegum ættartengslum, hafði samband við mig um það hvernig hún ætti að ala upp hvolpinn sinn. Hún hafði enga yfirsýn yfir hvolpaeldi, en henni hafði verið tjáð að þessi hvolpur hentaði henni, og það var vonlaust að reyna að kenna henni neitt annað. Hún trúði því að hún ætti besta hvolpinn í heimi. Og hversvegna? Hún hafði boðið heim gestum. Meðan þeir voru inni hafði hundurinn tekið sér stöðu hjá henni og urraði stanslaust að gestunum.

Málið er að þessi hundur var taugaflak og hefði aldrei átt að fæðast. Það er auðvelt að skilja viðhorf eigandans. Hundurinn var að verja hana. Hún bara skildi ekki hvernig hundurinn leit á málið. Hann er hræddur við allt, hræddur við velkomna gesti. Það er ástæða þess að hann tekur sér stöðu eins nálægt eiganda sínum og hann getur. Þessi nálægð gefur honum nægt hugrekki til að láta viðhorf sitt til gestanna í ljós með urri. Ég get fullvissað ykkur um að hefði konan ekki verið þarna, hefði hundurinn hennar skriðið undir sófann í hvert skipti sem gestur hefði komið inn í húsið, og enginn vill heyra um slíkt frá sínu heittelskaða gæludýri. En þetta er nú það sem við þurfum öll að heyra. Það er okkar eina von til þess að svona dýr séu ekki notuð til undaneldis. Þessi sjö mánaða gamli hvolpur er nákvæmlega sú tegund hunda sem við höfum mestar áhyggjur af að þróist upp í að verða hinn óútreiknalegi bithundur.

4.3. Við vorkenndum honum svo!
 Nýir eigendur hvolpa falla sífellt fyrir þessum hlédræga og feimna hvolpi. Við fáum samúð með þeim. Hundatemjarinn finnur þetta og blekkir okkur með því að við getum svo vel búið honum gott og viðkunnanlegt heimili, þar sem hann muni kunna svo vel við sig. Litlir hvolpar sýna veikt taugakerfi (geðslag) með því að sýnast feimnir eða hlédrægir. Þeir reyna að forðast allt sem er þeim ókunnugt. Sumir verða þannig alla tíð meðan aðrir verða árásargjarnir og allt að því grimmir þegar þeir stækka. Sama hvort er, báðar tegundirnar eru “risky business”. Ímyndaðu þér taugaveiklaðan hund með lágan þröskuld (lágur þröskuldur þýðir alltaf að hundurinn hefur litla sem enga stjórn á taugaveiklun sinni) sem hittir í fyrst sinn hvítvoðung? Þú hefur ekki hugmynd um hver viðbrögð hans verða.

Þetta breytist eitthvað þegar hundurinn stækkar. Hlédrægni í hundum er alltaf eitthvað sem eigandinn þarf að hafa áhyggjur af. Hvolpar eiga alltaf að vera með nefið ofan í öllu. Þegar hvolpurinn eldist róast hann niður. Hann hættir (eða á að hætta) að stökkva yfir allt og alla. Að skipta sér ekki af eða vera áhugalaus er ekki sama og að vera hlédrægur og feiminn (ef við getum notað það um hvolp) Það eru eðlileg viðbrögð fyrir uppkominn hund að vera á varðbergi gegn ókunnugum, hann á hvorki að sýna honum fælni eða vera beinlínis á varðbergi svo framarlega sem framkoma mannsins er eðlileg. Svona hæfileg grunsemd gegn ókunnugum er bara það sem við er að búast hjá Schäferhundum. Of margir hundaeigendur, eða þjálfarar vilja að hundurinn þeirra bjóði alla velkomna með skottveifum og gleðilátum. Þeir sem vilja að hundurinn þeirra hagi sér svona er ekki að biðja um Schäferhund. Þeir vilja að hundurinn þeirra sé Golden Retriever í Schaferhunda-búningi.

Við viljum bara að forvitni hunda sé svona hæfileg og að þeir rannsaki gesti af mátulegum áhuga. Þegar hundurinn stækkar fer að bera á tortryggni og ákveðinni hlédrægni. Það er bara eðlilegt og alls ekki merki um að hundurinn sé taugaveiklaður.

4.4. Einkenni.
Hvert er einkenni slæms taugaástands hjá hundi þegar hann vill ekki aðhyllast góða gesti? Ókunnar aðstæður eða það sem honum sjálfum finnst vera óæskileg nálgun, jafnvel ógnun? Mundu hvernig hundur sem er í varnarstöðu lítur út? Þegar þú tekur eftir óreglulegri hegðun hunds þegar engin ógn er sjáanleg, ertu að horfa á taugahrúgu. Taugaveiklaður hundur geltir sí og æ. Þetta er eins og að hlusta á vélbyssugelt eða drunur í vél sem er í gangi. Stanslaust gelt sí og æ. Þegar þú veitir þessu athygli er eins og hundurinn sé sífellt að leita sér að útgönguleið frá ímyndaðri ógnun með því að hörfa til baka, eða þá að hann frýs þar sem hann er. Að velta sér á bakið er hörfandi hegðun. Hana sérðu hjá hundum sem eru afar ósjálfstæðir, en mundu samt að þetta er ekki eins hjá öllum hundum. Sum taugaveiklunardæma eru verri en önnur.

Vertu á varðbergi ef þú heyrir hund urra. Urr er aldrei annað en vond frétt. Heilbrigðir hundar urra ekki á fólk né að hlutum. Þegar hrygghárin rísa er það líka merki um að hundurinn sé hræddur. Fólk er sí og æ að segja mér að það eigi góðan vakthund, vegna þess að þegar hann heyri hljóð urrar hundurinn eða hárin á honum rísa. Þetta fólk lifir í draumaheimi. Það skiptir engu máli hversu mjög hundurinn er að sýna sig, þú getur aldrei treyst hundi sem er með veikt geðslag eða bara taugaveiklaður til þess að vernda þig eða heimili þitt. Eina ástæða þess að hann er ekki fyrir löngu búinn að fela sig er að þú ert þarna enn. Það vantar ekki kjaftaganginn þegar mamma eða pabbi halda í endann á beislinu.

Hundar eru miklu sjálfstæðari þegar þeir eru heima hjá sér. Þessvegna er taugaveiklun þeirra ekki alltaf sýnileg. Ímyndaðu þér að kaupandi fullorðins hunds komi til að kíkja á hund sem hann vill kaupa. Seljandinn gæti verið með “bitermi“ (sleeve) og léti hundinn bíta sig nokkrum sinnum, svona til að sýna nýja eigandanum að hér sé rétti hundurinn fyrir hann kominn. En vertu nú varkár: Hundur sem bítur í ermi eiganda síns er bara að leika sér. Hér er ekki um neinn varnarleik að ræða! Þetta segir þér ekki nokkurn skapaðan hlut. Farðu með þennan sama hund út á opið svæði án þess að eigandinn sé nálægt og sjáðu hvað gerist.

4.5. Og við sem ætluðum bara að fá okkur fallegan og góðan hund!
Bestu hundarnir koma frá hundaræktendum sem eru að rækta eftir SV-standardi. Á bestu stöðunum eru ekki allir hvolparnir að fá sama æfingarprógrammið. Sumir eru til að örva í þeim “drive” og aðrir til þess að vera falleg heimilisprýði. Þínir möguleikar á að eignast góðan hund er að miklu betri ef þú einbeitir þér að því að fá þér vel ættfærðan Schäferhund. Jafnvel þótt þú sért bara að leita þér að hundi sem veitir þér félagsskap þarftu hund sem er taugasterkur og lætur ekki koma sér úr jafnvægi. Taugaveiklaður hundur sem er geltinn og óöruggur er verri en enginn hundur. Er það einhver góður kostur að þurfa að loka hundinn einhversstaðar inni þegar þú færð góða gesti? Eða eiga hund sem þú veist ekkert hvernig getur brugðist við ungum börnum? Og hvað með hund sem þú getur ekki treyst, hann eyðileggi húsgögnin í hvert skipti sem þú ferð út og skilur hann eftir einan heima? Taktu ekki mark á öllu sem hundaræktandinn segir þér. Ef hundurinn er öruggur og traustur hundur, bregst rétt við hljóðum, er hlýðinn og verndandi. Farðu sjálfur með hann út og láttu hann sýna það sjálfan. Láttu engan þjálfara koma með til að hafa áhrif á hundinn.

4. 6. En hundurinn minn er vinnuhundur!
Aðeins ofan við þennan venjulega söng um vinnusemi hunda, koma svo hundaræktendur sem véfengja “standardinn”. Þeir segja að “þeirra” hundar séu líka vinnuhundar, en þeir vinni kannski svolítið öðruvísi. Þeir séu góðir til undaneldis. SAR-einkun, K9, eftirtekt og hlýðni þeirra sé góð. Að vísu megi finna það í öðrum hundum og vissulega eru Schäferhundar þeim fremri á mörgum sviðum. En þessir ræktendur láta bara ekki á það reyna. Sú þjálfun sem þýskir hundar (GSD) fá er besta þjálfunin. Veiðihundar þeirra, eða smalahundar, (herding dog) fá þessa tamningu. Þeir fá ekki Schutzhund-dóm, nema þeir sýni af sér bæði verndarþáttinn og hugrekki. Þannig að HGH-þátturinn getur líka komið í stað Schutzhund-dómsins, en blandaðu samt ekki saman “German style hearding við AKC hearding”. Annað vandamál við að blanda saman fleiri en einni tegund tamningar við aðra er að þá er farið að sleppa úr þáttum sem máli skipta. Hundur sem hefur gengið undir SAR-þjálfun og hefur sýnt af sér bæði hugrekki og tekur allri þjálfun vel, sem er bara gott. En hvaða tryggingu höfum við fyrir því að erfingjar hans muni erfa þann möguleika? Hvernig eigum við að sannprófa hugrekki, kjark og baráttuþrek slíks hunds?

Það er oft ótrúlegt hvaða sannanir sumir hundaræktendur koma með þegar þeir fullyrða að ADC-hlýðni jafngildi Schutzhund-hlýðni, ræktunareiginleikum, áframhaldandi eigilnleikum sem ganga til afkvæmis og genetískum eiginleikum.

Munið líka að það eru ekki öll taugaveiklunareinkenni sem koma eins fram í hundi sem hörfar undan ógn, það er hlutum sem hann þekkir ekki en honum finnst ógnvekjandi. Sumir hundar reisa hár á hrygg og gelta að “ógninni”. Taugaveiklun getur komið fram með ýmsum hætti. Það styrkir bara að blanda foreldrum saman. Ímyndaðu þér hund sem hættir að leita vegna þess að eigandinn er orðinn of langt í burtu. Hver er ástæðan? Skortur á “drive”? Hugsanlega, en það gæti líka verið skortur á taugastyrk. Að hundurinn missi “drive” þótt forvitni sé enn til staðar ef eigandinn er kominn of langt frá?

Þetta er aðalástæða þess að hundar falla á prófum. Og það er ekki bara hundar sem ætlaðir eru til löggæslustarfa. Það gildir líka um hunda sem þurfa sjálfir að ákveða hvers er verið að leita og hvernig eigi að bera sig að. Hugsið ykkur fíkniefnaleitarhund. Þarf hann ekki að vera taugasterkur? Vissulega? Taugaslappur hundur fer ekki einn inn í vöruhús innan um gangandi vélar til þess að leita að fikniefnum nema eigandinn komi með. Ekki kannski besti tíminn til að finna út kjarkinn sem ræktandinn segir að hundurinn búi yfir?


4. 7. Hvernig á að finna besta hundinn?
Sá sem kaupir hvolp getur losnað við fullt af vandamálum ef hann kaupir hvolp af gildum Schäfer ræktanda. Þeir sem rækta hunda sína þannig að þeir nái SV-standardi og vita hvar taugastyrkur hundsins stendur og liggja ekkert á því,  þá veit eigandinn hvað hann er að kaupa. Hundaræktendur sem vilja láta reyna á hugrekki hundsins og sætta sig við hve langt hundurinn kemst, þótt það valdi honum vonbrigðum, lætur kaupandann vita af því. Það er þá kaupandans að velja hvort hann vill hundinn eða ekki.

Taugasterkur hundur er hvers manns hugljúfi. Það er hægt að skilja hann einan eftir hjá börnum. Hann er aldrei að sýna neitt sem hann býr ekki yfir. Hann veit sjálfur að hann getur brugðist rétt við öllu sem upp kemur. Aðeins vel ræktaður hundur, taugasterkur og kjarkaður er hundurinn sem þú getur alltaf treyst á. Hann verndar þig og heimili þitt.


Höfundur: Joy Tiz - Íslensk þýðing: Pétur Gissurarson fyrir Svarthamarsræktun

 

bottom of page