top of page

Ræktunarstaðall Þýska fjárhundsins með skýringarmyndum

Höfundur: Verein fur Deutsche Schaferhunde (SV) og The World Union of German Shephard Dog Clubs (WUSV).

Eftirfarandi er staðall er birtur eins og hann er skilgreindur af  Verein fur Deutsche Schaferhunde (SV) Ausburg, Germany, sem er frumkvöðull ræktunar á hundi þeim sem staðal þennan varðar og ber alheimslega ábyrgð á heilsu hans og þróun. Fyrsta uppkastið að þessum staðli var gefið út af A. Mayer og Max Von Stephanitz á fyrsta fundi félags sem stofnað var gagngert í þeim tilgangi, 20. September 1899 í Frankfurt Main. Reglur félagsins voru endurskoðaðar og endurbættar á sjötta fundi meðlima þess 28. Júlí 1901 og síðar fundi stjórnar félagsins sem haldinn var 5. September 1930 í Wiesbaden. Enn og aftur var staðallinn endurskoðaður og endurbættur af The World Union of German Shephard Dog Clubs (WUSV). Hann var samþykktur á aðalfundi félagsins í ágúst 1976. Óprentuð og óútgefin viðbót við staðalinn var samþykkt af meðlimum GSA á árlegum aðalfundi 1978. Á síðustu árum hafa sum ákvæði staðalsins verið víkkuð út og bætt í hann atriðum til þess að gera hann skiljanlegri og nákvæmari. Reglur og ákvæði sem varða hreinræktun þýska Schafersins hafa öðlast lagalega viðurkenningu og verið tekin inn í Catalogue Constitution of The National German Shephard Working Dog Association. 

stadall01.png

ALMENN LÝSING
Þýski fjárhundurinn er vinnuhundur af meðalstærð. Hæð hans á herðakambi er hæð beinabyggingarinnar bolsins. Hæðina skal mæla með mælistiku sem tekur hæðina lóðrétt frá efsta hluta á herðakambi niður á gólf. Gæta skal þess að hárin séu bæld niður þannig að mælistikan snerti húðina.  Mælistikan skal snerta olnbogann aftanverðan og mynda lóðrétta línu frá herðakambi niður á gólf. Hæð á herðakamb á hinum óaðfinnalega karlkyns-Þýskum fjárhundi er 62,5 sentimetrar. Frávik upp á 2,5 sentimetra undir og yfir þessari hæð er ásættanleg. 65 sentimetra hæð að hámarki  og 60 semtimetrar lágmark er því viðurkennd eða leyfð. Kvendýrið (tíkin) á ekki að vera hærri en 60 sentimetrar og ekki lægri en 55 sentimetrar.

Meiri hæð en ofangreint hámark og lægri en lágmarkið útiloka dýrið frá þessum flokki hunda, sem kallast Þýskum fjárhundi. Hann getur þá ekki talist standast þær kröfur sem gerðar eru til hreinræktunar þessarar tegundir og hæfni hans sem vinnuhunds er dregin í efa. Þýski fjárhundurinn er dálítið langur miðað við hæð, leggjabeinin eiga að vera sterk og sveigjulaus. Hann á að virðast sterkari en hæð hans gefur til kynna og vel vöðvafylltur. Hlutfallið milli hæðar hans og lengdar og staða fótleggja skal gefa til kynna gott hlaupaþol og hraða.

Feldur hundsins á að vera vatnsfráhrindandi og hárin af eðlilegri lengd. Rétt er að horfa til samræmis í fegurð dýranna þegar hundur og tík eru pöruð saman. Ekki má samt láta slíkt hafa forgang framyfir þá eiginleika hundsins að teljast framúrskarandi vinnuhundur. Leggja skal áherslu á að viðhalda kynbundnum eiginleikum, hinum karllegu eiginleikum karlýrsins og kvenlegu eiginleikum kvendýrsins og það sem aðskilur kynin í útliti og framkomu, karlmennskulegt yfirbragð hundsins og kvenlegan yndisþokka tíkurinnar svo við heimfærum eiginleikana upp á mannfólkið. Áhorfandinn á ekki að þurfa að efast um hvers kyns dýrið er. Dýrið á að vera eðlilegt, afslappað en þó ávalt viðbúið. Yfirbragðið greindarlegt, hreyfingar fjaðurmagnaðar og líkaminn allur sveigjanlegur. Ekkert of og ekkert van. Það á að vera sjáanlegt af hreyfingum og allri framkomu hundsins að þar fer heilbrigð skepna bæði líkamlega og andlega. Hundurinn á að sýna í sínu atlæti öllu að hann er ávallt reiðubúinn, þolinn og líkamlega vel á sig kominn. Hann á að vera hinn fullkomni vinnuhundur og það á enginn sem sér hann að þurfa að efast um að svo sé.

Þrátt fyrir líflegt lundarfar verður hundurinn ávallt að vera hlýðinn og hann verður að vera fær um að aðlagast öllum aðstæðum. Hann á að sýna í viðmóti sínu að hann sé ánægður og hann á að bregðast við öllu sem fyrir ber á jákvæðan og opinn hátt og hlýða öllu sem krafist er af honum. Hann verður að sýna kjark og verja húsbónda sinn og eigur hans af fullkominni trúfestu ef á þarf að halda. Hann verður að vera reiðubúinn til árásar og hlýða skipunum þar að lútandi ef húsbóndi hans býður honum að gera svo. Þess utan á hann að vera umgengnisgóður, hlýlegur og vinalegur heimilishundur, sem verndar og þykir vænt um fjölskyldu sína og heimili, barngóður og sýna öðrum hundum vinsemd og virðingu og fólki almennt. Hundurinn skal ávallt bera með sér að hann sé vel upp alinn, þægilegur í umgengni, ávallt vökull og fullur sjálfstrausts.

REISN OG HREYFINGAR
Þýski fjárhundurinn er brokkari. Það þýðir að þegar hann hleypur þá færast fætur hverrar hliðar þannig að þeir mætast við annaðhvert skref en aðskiljast í næsta skrefi, framfótur vísar fram, afturfótur sömu hliðar aftur, á þessu gengur meðan hann hleypur nema hann bregði á stökk. Á brokkinu breytist lína hryggjarins ekki, afturfætur færast fram undir og aðeins framfyrir miðjan kvið í framsveiflunni og langt aftur fyrir búkinn þegar þeir vísa aftur. Framfótur og afturfótur sömu hliðar allt að því snertast þegar afturfóturinn sveiflast fram og framfóturinn aftur undir kviðinn sé hundurinn á hröðu brokki. Þegar óaðfinnanlegt samræmi er milli hæðar hundsins og lengdar er reisn og tign yfir hreyfingum hans og þær virðast algjörlega áreynslulausar. Hundurinn teygir snoppuna lítillega fram á brokkinu sem eykur við tíguleikann, skottið lyftist aðeins á hlaupunum. Á hægu brokki myndar lag og staða eyrnanna mjúka línu aftur og niður eftir hálsinum og aftur eftir herðakambi, beinu bakinu og áfram aftur á lítillega reist skottið. 

stadall02.png
stadall03.png

SKAPGERÐ, EIGINLEIKAR OG VERÐLEIKAR
Aðaleiginleikar Þýska fjárhundsins og grunnþættirnir í eðli hans eru taugastyrkur, umhyggjusemi, andlegt jafnvægi, hlýðni, hann er sífellt á varðbergi, og afar tryggur og húsbóndahollur. Hann er hugrakkur og fórnfús og hikar hvergi við að hlýða skipunum húsbónda síns þótt það kosti að hann setji sitt eigið líf í hættu. Þessir eiginleikar gera hann að afbragðs vinnuhundi hvernig sem á það er litið. Hann er frábær, lögregluhundur, varðhundur, veiðihundur, keppnishundur og smalahundur. Þefnæmi hans er framúrskarandi og hann getur hlaupið tímunum saman með nefið niður við jörð. Hann er því frábær sporrekjandi. Þessir eiginleikar gera hann að framúrskarandi lögreglu- og björgunar/leitarhundi. Hann hefur alla þá kosti sem góðan og gagnlegan hund má prýða.

HÖFUÐLAG
Höfuð hundsins skal svara vel til líkamsbyggingarinnar. Höfuðlengdin skal vera um það bil 40% af lengd herðakambs, höfðuðið hvorki of gróft né of fínlegt og samsvara sér vel, góð breidd milli eyrnanna og svipmótið hreint. Ennið aðeins lítillega bogadregið og engin eða nær engin skora sjáanleg í enni. Kinnarnar (vangar) skulu vera örlítið bogadregnar án þess að vera útistandandi. Þegar horft er á höfuðið ofan frá á höfuðið allt að smámjókka í mjúkri bogalínu frá eyrum og niður á snoppuna. (Ennið frá hvirfli og fram á augabrúnir á að vera um það bil helmingur af allri lengd höfuðsins). Báðir kjálkar eiga að vera sterklegir og vel lagaðir og neðri kjálkinn á að vera vel aðgreinanlegur frá hinum efri þegar dýrið er með lokaðan skoltinn. Breidd höfuðsins efst skal vera sem næst lengd efri hlutar þess. Á karldýrinu kann breiddin að vera aðeins meiri en lengdin en gagnstætt á kvendýrinu. Skolturinn á að vera sterkur og bera það ótvírætt með sér. Varirnar hreinar og falla vel að tanngarði. Nefið beint og tengjast enninu í fallegum boga.

TANNBYGGING
Tennur hundsins eiga að vera sterkar, heilbrigðar og óaðfinnanlegar. Þegar hann er ársgamall á hann að vera kominn með 42 tennur, 20 í efri skolti og 22 í neðri.

Tanngarðurinn er eftirfarandi: 12 framtennur, 4 vígtennur, 16 fremri jaxlar og 10 aftari jaxlar. Sagt er að þýski shephardinn sé með “skærabit”, það er að framtennur í neðri skolti lenda fyrir innan framtennurnar í efri skolti þegar hann bítur saman. Þaðan kemur líkingin við skærin. Vegna þess að Schaferinn er talinn vinnuhundur höfum við lagt mikla áherslu á byggingu kjálka, eða skolta hans og hversu gott skipulag er á allri tannbyggingunni. Ef tennur í efri og neðri skolti mætast ekki fullkomlega er tannbyggingin álitin gölluð. Vanti í hann tennur, fleiri eða færri, óeðlilegt  mikið bil milli þeirra, galli í glerung eða slit í tönnum telst það vöntun á heilbrigði dýrsins. Ekki ætti að nota hunda eða tíkur til undaneldis sem hafa gallaðar tennur eða tannbyggingu. 

stadall04.png

EYRU
Eyrun eiga að vera af meðalstærð, breið niður við höfuðið og vera vel háreist. Þýski fjárhundurinn hefur stinn og reist eyru, mjókka í mjúkri og jafnri línu og enda í mjúkum og  ávölum spíss, sem snýr beint fram þegar hann sperrir eyrun. Ef eyrun slapa, eru oddhvöss í endann eða skörðótt telst það galli. Spert eyru skulu ekki vísa innávið, heldur beint fram. Eyru sem vísa innávið draga úr samræmi í útliti. Á ungum hvolpum og meðan þeir eru að taka tennur, vilja eyrun stundum lafa, en um sex mánaða aldur ætti það að vera hætt. Eyru gamalla hunda taka stundum að vísa lítið eitt innávið. Þegar hundurinn er í hvíld eða þegar hann liggur leggjast eyrun stundum aftur með höfðinu. Það er eðlilegt og telst ekki galli.

AUGU
Augun eru meðalstór, möndlulaga, skásett en ekki útstandandi. Litur augnanna ætti að vera í samræmi við litinn á feldinum. Æskilegt er að þau séu mjög dökk. Þau eiga að geisla af greind, árvekni og öryggi.

HÁLS
Hálsinn á að vera sterklegur, vel vöðvafylltur og húðin á ekki að poka niður neðan á hálsinum. Háls og höfuð á að rísa undir um 44° horni við venjulegar aðstæður en eitthvað hærra þegar hundurinn er á varðbergi en eitthvað lægra þegar hann brokkar.

BOLUR
Líkamslengd þýska fjárhundsins ætti að vera aðeins meiri en hæð hans er á herðakamb. Algengt er að lengdin sé frá 100% til 117% af hæðinni. Lengdin er mæld frá bringubeini að framan aftur að mjaðmagrindarbeini að aftanverðu. Hundar sem eru styttri en framangreind viðmiðun kveður á um, þreknir eða of leggjalangir standast ekki samþykktan stærðarstaðal Þýska fjárhundsins. Hundar með slíkt vaxtarlag teljast gallaðir. Bringan á að vera djúpstæð (45-48% af hæð á herðakamb) en ekki of breið. Framhluti bringunnar á að standa hæfilega langt fram og vel vöðvafyllt. 

stadall05.png

Brjóstkassinn á að vera vellagaður og langur. Hvorki belglaga né flatur. Hann á að ná vel niður á bringubeinið að framan og olnboga að aftan. Rétt skapaður brjóstkassi er ekki fyrir olnboganum þegar hundurinn brokkar. Sé hann of kúptur, eða tunnulaga hindrar hann frjálsa hreyfingu framfótarins og olnboginn sveigist út frá líkama hundsins þegar hann gengur eða hleypur. Sé brjóstkassinn of þunnvaxinn leiðir til þess að olnboginn og þar með framfæturnir leita of mikið inn undir búkinn þegar hundurinn gengur eða hleypur. Brjóstkassinn á að ná vel aftur en kviðarholið afturámóti vera tiltölulega stutt, kviðurinn dragast uppávið aftur við klofið. Herðakambur og makki háreistur og langur miðað við heildarlengd dýrsins, og tengjast baki í mjúkri samræmdri, eilítið afturhallandi línu fremst en halling eykst eftir því sem aftar dregur. Bakið á ekki að vera of langt, miðað við líkamslengd frá herðakambi aftur að lendum. Lendar eiga að vera breiðar, vel vöðvafyllar og sterkar, hallinn um það bil 23°. Spjaldhryggsbein og liðurinn þar sem lærleggur og spjaldhryggsbeinið mætast ákvarða mótunina á afturenda hundsins. Lendar skulu ekki vera of brattar, ekki of flatar né of stuttar. 

stadall06.png

SKOTT
Skottið á Þýska fjárhundinum á að vera stríðhært, og ekki styttra en svo að það nái vel niður á hækilbeinið (hækill er næstneðsti liðurinn) Skottið á ekki að ná lengra en niður að hælnum. Endinn á skottinu sveigist stundum lítillega til annarar hliðarinnar. Það er ekki æskilegt en telst samt ekki til galla.

Þegar hundurinn er afslappaður liggur skottið niður en með dálítilli uppsveigju allra neðst. Þegar hundurinn beinir athygli að einhverju sérstöku reisir hann skottið lítillega og sveigjan eykst. Endinn á skottinu ætti aldrei að lyftast það hátt að endinn fari uppfyrir hæð rófubeinsins. Verði hundurinn æstur er staðan á skottinu ágætur mælikvarði á hversu djúpt sá æsingur ristir. Þegar hundurinn er í vinnu ætti ekki að tengja stöðu þess við þá stöðu sem það venjulega er í. Staða á skotti á hundi sem ekki tekur breytingum miðað við virkni hans bendir til þess að eitthvað sé að skottinu. Skottstífingar eru ekki leyfðar.

FRAMFÆTUR
Herðablöð eiga að vera löng og halli þeirra á að vera um 45° og liggja vel þétt við bolinn. Efsti leggur framfóta á að mynda næstum því rétt horn í liðnum þar sem leggurinn og herðablaðið mætast. Herðar og efsti hluti framfótar eiga að vera sterk og vel vöðvafyllt. Neðri leggur framfóta á að vera beinn, hvort sem á hann er horft framanfrá eða frá hlið. Leggjabeinin eiga helst að vera ávöl, ekki sívöl. Ristar eiga að vera þéttar viðkomu og ekki of mikið hallandi, besta staða er um 20° halli. Lengd leggjabeina skyldi vera aðeins lengri en dýpt brjóstkassa.

AFTURFÆTUR
Lærin eiga að vera breið, þykk og vöðvamikil. Efra mjaðmabeinið/lærleggurinn á að vera vel greinanlegur þegar horft er á hundinn frá hlið þar sem það sveigist lítillega áður en hann tengist liðamótum milli lærleggs og sköflungs undir um það bil 120°horni. Samræmi skal vera milli bogans við liðinn að framan þar sem og sköflungur mætast og boga liðamótanna að aftan þar sem sköflungur mætir neðri leggnum (konungsnefið eða hækillinn). Liðamót hækils (konungsnef) skulu vera stinn viðkomu og sterkleg svo og bæði bein, hinn efri leggur og bein neðan hækilsins. Það er mikilvægt að þessi liðamót séu rétt formuð og sterk. Það er afar mikilvægt að afturfæturnir séu öflugir og leggir og liðir í réttum hlutföllum, bæði til að ráða vel við þunga dýrsins. Hlaupakraftur, hraði og þol ræðst að langmestu leyti af styrk og lögun afturfótanna. Þegar horft er á hundinn aftanfrá eiga afturfætur hans að vera í beinni línu niður frá mjaðmaliðunum. Hæklar eiga líka að vera í beinni línu, hvorki að vísa innundir né útávið.

LOPPUR
Tærnar eiga að vera sívalar, bogadregnar og liggja þétt saman. Þófarnir eiga að vera þéttir viðkomu og stífir en ekki of grófir né þurrir. Klærnar eiga að vera stuttar, sterkar og dökkleitar á litinn. Sumir hvolpar fæðast með afturkló (smalakló) á afturfæti. Hana skal fjarlægja fljótlega eftir að hvolpurinn fæðist, því fyrr því betra.

LITUR
Það eru til nokkrir aðallitir og ýmiskonar afbrigði af þeim. Í ræktun skal lögð áhersla á svartan lit með brúnleitu eða gráleitu ívafi. Bak eða hryggjarstykki skal vera svart án ívafs annarra lita nema gráleita litarívafsins, það telst ásættanlegt. Alsvart, algrátt eða grátt með dekkri eða brúnleitu ívafi eru leyfilegir, en það er mesta frávik sem staðallinn leyfir. Tvílitur, þar sem annar liturinn er nær alsvartur en slær í brúnu á fótum er í góðu lagi. Þótt votti fyrir hvítu á bringu og kvið þykja það ekki æskileg litbrigði en eru leyfð.

Snoppan skal undantekningarlaust vera svört. Hundar með afbrigðilegt andlitsfall, gul eða ljósleit gegnumborandi augu, ljósar strípur í feldi eða innan á fótum eru svikin vara. Litlausar klær, rauðan díl í skotti og hálflitlausir eru dæmi um misheppnaða háralitaræktun. Háralitur á kvið á hundum sem ekki eru alsvartir, er venjulega með gráleitan háralit á kvið. Feldur hundsins er oftast ekki búinn að taka á sig sinn endanlega lit fyrr en hann er orðinn fullorðinn.

FELDUR

A: Stutthærður algengur feldur: 
Hinn dæmigerði þýski fjárhundurá að hafa þykkan undirfeld. Ytri feldurinn á að vera eins þétthærður og mögulegt er. Hvert hár á ytri feldinum er strítt og beinvaxið og leggst þétt að bolnum. Hárið á höfði dýrsins, eyrum þess, framan á fótleggjum, loppum og tám er stutt. Á hálsi er það lengra og stríðara. Á sumum karlkyns hundum getur það verið aðeins ýft. Hárin aftan á fótleggjum er lengra en að framan og er svo allt niður á neðsta lið (hækilinn). Einkanlega verður hárvöxtur aftan á afturfótum þéttur og mikill að umfangi. Engar ákveðnar reglur gilda þar um, en sé hárið aftan á fótleggjum á karldýrinu lítið og ljóst á lit er ræktunin ekki hrein. Það er einnig tilfellið ef hár á baki og lend eru stutt og flókakennd.

B: Síðhærður feldur:
Á síðhærða þýska Schafernum eru hárin greinilega lengri. Þau eru ekki alltaf löng og stríð eða liggja þétt að bolnum. Þau eru greinilega lengri innan á og aftan við eyrun og aftan á framfótleggjum og venjulega líka milli afturfótanna (klofinu). Hárin mynda lokka í eyrum og aftan á fótunum, eru liðuð, eins og það er kallað. Við liðamót er hárið þykkt og mikið.Skottið er þakið miklu hári sem er nokkuð liðað að neðanverðu. Háralag af þessari gerð hrindir illa vætu og er ekki mælt með ræktun hunda með þetta háralag.

C: Síðhæður feldur þar sem hárin á baki leggjast til hliðanna:
Hann mætti kalla tvískipta feldinn. Hárin eru ennþá lengri en hárin á feldi B sem lýst er hér að ofan. Hárin skipta sér á miðju baki og leggjast niður með síðunum sitt hvoru megin. Hárin eru mjúk og nánast með silkiáferð. Sé um einhvern undirfeld að ræða er hann aðeins að finna milli afturfóta dýrsins. Hundar af þessari gerð eru venjulega með rýran brjóstkassa og með mjótt og aflangt trýni. Þetta háralag býður ekki upp á mikla vernd gegn vætu og kulda og hundar með svona háralag geta vart talist til vinnuhunda. Þessir hundar eru því ekki vænlegir til ræktunar og teljast gallaðir.

GALLAR.
Afar þung áhersla er lögð á að koma í veg fyrir að gallar, hversu smávægilegir þeir kunna að virðast í fyrstu, nái að komast inn í ræktunarferli þýska fjárhundsins og draga úr hæfileikum hans sem vinnuhunds. Þeir eiginleikar sem ekki er óskað eftir að nái að festa rætur í tegundinni eru gallar, eins og taugaveiklun, árásargirni/grimmd, hlédrægni og kjarkleysi; líkamlegir ágallar eins og að aðeins annað eistað komi niður á karldýrinu eða jafnvel hvorugt, eða að eistun séu vanþroska, teljast líkamlegir ágallar. Skortur á árvekni og þrótti eða hik við að gegna skipunum sem útheimta álag og vinnusemi má telja fremur til andlegra ágalla. Rýrir og ótótlegir hundar fullnægja ekki kröfum um hreinræktaða vinnuhunda. Áberandi litafbrigði í hárum í átt að ljósari litum en þau sem getið er hér að framan, ásamt bleiklitaðri snoppu og gulleitum augum, að ekki sé talað um hvíta, eða nær hvíta hunda með svarta snoppu er óásættanlegt. Flekkóttir eða skræpóttir hundar eru auglýsing um alvarlega galla í erfðaefnum sem ráða lit háranna. Hundar sem falla utan þeirra stærðarmarka sem áður er getið í staðli þessum teljast ekki til hreinræktaðra hunda. Þar má nefna hunda sem eru með önnur stærðarhlutföll en getið er um í staðlinum, svo sem of langa eða of stutta fótleggi, bolurinn of þungur og of stór miðað við aðra líkamshluta, eða of lítill. Veikt bak, afstaða fóta til bolsins röng og ekki með réttum halla og ekki í samræmi við líkamsbygginguna. Slíkt hindrar bæði hraða og úthald hundsins. Stutt snoppa og þver að framan og veikbyggð, eða löng, trjónulaga og veikbyggð, allt þetta telst til mikils ágalla. Hunda með slíka ágalla á aldrei að nota til undaneldis.

Alvarlegir ágallar teljast einnig aflögun á biti, það er þegar stöðu neðri skolts gagnvart efri er ábótavant. Tanngarði ábótavant eða tennur skemmdar eða veikbyggðar. Um það hefur þegar verið fjallað hér að framan.

Aðrir ágallar eru: Of mjúk hár, og löng (loðinn) eða of stutt (snögghærður) eða hárlítill undirfeldur. Slöpp eða lafandi eyru. Hrokkinhært skott, sem er auk þess hálfhringað eða ekki rétt borið (sjá hér að framan). Skörðótt eyru og skott, og stutt skott, teljast líka ágallar. 

Myndir og texti fengið hjá Í GSA á Írlandi með þeirra leyfi. Íslensk þýðing: Pétur Gissurarson fyrir Svarthamarsræktun.

 

 

bottom of page